fös 07.okt 2022
Telja að Ronaldo gæti lagt skóna á hilluna í janúar

Cristiano Ronaldo leikmaður Manchester United hefur vægast sagt átt slakt tímabil í ár. Hann hefur ekki spilað mikið í deildinni en fær að spila í Evrópudeildinni.Hann var í byrjunarliðinu í gær þegar United vann 3-2 sigur á Omonia frá Kýpur. Hann klikkaði á dauðafæri seint í leiknum en hann bætti upp fyrir það með því að leggja upp markið sem gerði út um leikinn.

Hann spilaði ekkert um síðustu helgi í skelfilegu tapi liðsins í grannslagnum gegn Man City en Ten Hag sagðist ekki hafa sett hann inná af viðringu við ferilinn hans.

Sæbjörn Steinke spjallaði við Albert Hafsteinsson og Kristinn Guðbrandsson í hlaðvarpsþættinum Enski Boltinn en þeir ræddu stöðu Ronaldo.

„Hann var ömurlegur í þessum tveimur leikjum með Portúgal, spilaði allar mínúturnar. Því miður virðist þetta vera búið hjá honum, hann spilar Evrópudeildarleiki og er að halda sér til að spila HM og svo held ég að hann segi þetta gott," sagði Albert.

„Hann er búinn með sín bestu ár það er alveg gefið. Ætli hann hætti bara í janúar?" Sagði Kristinn.

,,Jafnvel, mér finnst þetta svo augljóst, hann spilar allar mínúturnar með Portúgal og ekkert hjá United, mér finnst þetta bara algjörlega búið," sagði Albert.