fös 07.okt 2022
Var næstum því búinn að missa starfið en fær núna nýjan samning
Steve Cooper.
Steve Cooper hefur skrifað undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Nottingham Forest.

Þetta er nokkuð óvænt tíðindi í ljósi þess að fyrr í þessari viku var talað um það að Cooper væri á hálum ís í sínu starfi.

Það fóru af stað háværar sögur um að Cooper yrði látinn fara frá Nottingham Forest eftir slæmt tap gegn Leicester síðasta mánudagskvöld.

Það var haldinn krísufundur hjá stjórnarmönnum Forest í vikunni og var tekin ákvörðun eftir þann fund að Cooper myndi halda áfram.

Cooper náði frábærum árangri með því að stýra Forest upp í efstu deildina á síðasta tímabili, en liðið er í deild þeirra bestu í fyrsta sinn í 23 ár. Liðið var á botni Championship-deildarinnar þegar hann tók við í september 2021.

Forest verslaði mikið í sumar en er sem stendur á botni ensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir átta leiki.

Starf hans var sagt í hættu fyrr í þessari viku en Forest ætlar að sýna Cooper áfram traustið.