fös 07.okt 2022
U17 tapaði gegn Sviss - Allt skýrist í lokaumferðinni
Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir í leiknum gegn Ítalíu.
U17 landslið kvenna mætti Sviss í dag og þurfti að sætta sig við svekkjandi tap.

Leikurinn fór fram á Valentino Mazzola á Ítalíu og hófst hann klukkan tíu að íslenskum tíma. Ísland gerði 3-3 jafntefli við Ítalíu í fyrstu umferð, en það lið sem endar í neðsta sæti riðilsins fellur niður í B-deild undankeppninnar.

Sviss tók forystuna snemma en Emelía Óskarsdóttir jafnaði metin fyrir íslenska liðið fyrir leikhlé.

Sviss var hins vegar sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og náði að landa góðum sigri, 1-3.

Frakkland er á botni riðilsins eins og er, án stiga, en þær mæta Ítalíu síðar í dag. Ísland er með eitt stig en þrjú efstu lið riðilsins fara áfram á næsta stig. Þetta skýrist allt í lokaumferðinni.

Ísland leikur við Frakkland í lokaleik sínum í riðlinum á mánudag.