fim 27.okt 2022
Napoli segir nei við Ronaldo
Cristiano Ronaldo fer alla vega ekki til Napoli
Ítalska félagið Napoli ætlar ekki að reyna við Cristiano Ronaldo, leikmann Manchester United, í janúarglugganum en þetta segir Cristiano Guintoli, yfirmaður íþróttamála hjá Napoli.

Portúgalska stjarnan mun væntanlega reyna að komast frá United í janúar eftir að hafa fengið takmarkaðan spiltíma á þessari leiktíð.

Ronaldo neitaði að koma inná í 2-0 sigri United á Tottenham í síðustu viku og var í kjölfarið settur í agabann af Erik ten Hag, stjóra félagsins, en hann mætir þó aftur í hópinn fyrir leikinn gegn Sheriff í Evrópudeildinni á morgun.

United mun ekki standa í vegi fyrir Ronaldo ef hann vill fara og nú spurning hvaða félög hafa áhuga á að fá hann. Það er alla vega hægt að afskrifa Napoli.

„Ronaldo í janúar? Það mun enginn leikmaður koma til okkar í janúar. Við þurfum ekki að breyta neinu í liðinu."

„Það gengur vel hjá okkur og við erum ekki að skoða það að bæta við hópinn, alla vega eins og staðan er núna,"
sagði Guintoli.