fim 27.okt 2022
[email protected]
Sjáðu lokasekúndurnar ótrúlegu í Madríd
 |
Atletico er úr leik. |
Það var gríðarleg dramatík í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi þar sem Atletico Madrid féll úr leik.
Atletico gerði 2-2 jafntefli gegn Bayer Leverkusen á heimavelli sínum í gær. Franski vængmaðurinn Moussa Diaby kom Leverkusen yfir á 9. mínútu áður en Yannick Carrasco jafnaði metin þrettán mínútum síðar.
Callum Hudson-Odoi kom Leverkusen aftur í forystu á 29. mínútu en Rodrigo de Paul jafnaði strax í upphafi síðari hálfleiks.
Lokamínútur leiksins voru heldur betur dramatískar en þegar níu mínútur voru komnar í uppbótartíma fékk Atlético vítaspyrnu er varnarmaður Leverkusen handlék knöttinn. Carrasco fór á punktinn en Lukasz Hradecky sá við honum.
Í kjölfarið á vörslunni náði miðjumaðurinn Saul frákastinu en hann skallaði boltann í slána. Aftur náði Atletico frákastinu, það var varnarmaðurinn Reinildo. En einhvern veginn tókst Leverkusen að bjarga á línu.
Eftir þetta jafntefli var það ljóst að Club Brugge og Porto færu upp úr riðlinum, en Atletico og Leverkusen sitja eftir. Leikmenn Porto sáu lokamínúturnar í leik Atletico og Leverkusen um borð í flugvél á leið til Porto eftir sigur sinn á Club Brugge í Belgíu.
Hægt er að sjá myndband af lokasekúndunum í Madríd og fagnaðarlátum leikmanna Porto hér fyrir neðan.
|