fim 27.okt 2022
Gummi Magg um landsliðið: Ég er ekki jafn svekktur og konan mín
Gummi hefur átt frábært tímabil - skorað sautján deildarmörk fyrir nýliða Fram
Það væri alveg gaman að prófa eitthvað nýtt - aðra menningu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Framherjinn Guðmundur Magnússon er ekki á meðal þeirra 23 leikmanna sem fara til Dúbaí eftir helgi til að spila vináttulandsleik gegn Sádí-Arabíu og svo í kjölfarið til Seúl til að mæta heimamönnum í Suður-Kóreu. Þegar hópurinn var opinberaður fyrir tæpri viku síðan furðuðu sig einhverjir á því að nafn Guðmundar væri ekki á lista. Þar á meðal var eiginkona hans, Thelma Björk Theodórsdóttir.

„Veit að ég er ekki hlutlaus, en þetta er Mesta bull lífs míns," skrifaði Thelma m.a. í færslu á Facebook.

Guðmundur gæti orðið markakóngur í Bestu deildinni, hann er þessa stundina með jafnmörg mörk skoruð og Nökkvi Þeyr Þórisson en hefur spilað fleiri leiki. Hann þarf að skora gegn Keflavík í lokaumferðinni til að tryggja sér markakóngstitilinn.

Gummi, eins og hann er oftast kallaður, var gestur í Innkastinu og var þar spurður út í landsliðsvalið. Fimmtán leikmenn úr Bestu deildinni eru í hópnum.

„Allir sem eru í þessum hóp eiga þetta klárlega skilið, allir búnir að standa sig þvílíkt vel. Auðvitað verður maður svekktur ef nafnið manns er ekki - miðað við hvernig tímabilið er búið að vera. En svo þegar dagarnir líða þá sér maður að það er náttúrúlega verið að undirbúa framtíðina, einhverjir af þessum munu pottþétt verða valdir í hópinn í nánustu framtíð. Ég er ekkert jafn svekktur og konan mín sko. Ég var búinn að segja við besta vin minn sem var búinn að peppast yfir þessu: „Ef það verður þá verður það, ef ekki þá verð ég ekkert fúll"."

Væri gaman að prófa að fara erlendis
Dreymir Gumma um að spila erlendis?

„Þegar maður er yngri í þessu þá horfir maður á þessar toppdeildir, Noreg, Danmörku og Svíþjóð og allt þetta. Þegar maður er búinn að vera spila mikið heima og orðinn 31-32 þá kemur smá ævintýraþrá. Af hverju ekki? Konan er að klára nám í haust þannig það er eiginlega ekkert sem er að binda okkur hérna heima ef það kæmi eitthvað upp. Það væri alveg gaman að prófa eitthvað nýtt - aðra menningu," sagði Gummi.