fös 28.okt 2022
Pablo Marí: Ég sá einstakling deyja fyrir framan mig
Pablo Marí (til vinstri) í leik með Monza.
Pablo Marí er hjá Monza á láni frá Arsenal.
Mynd: Getty Images

Í gær var gerð hnífaárás í verslunarmiðstöð í úthverfi Mílanó en einn lést og fimm særðust í árásinni.

Pablo Marí, varnarmaður Arsenal, var meðal þeirra sem særðust en hann er ekki í lífshættu. Hann fer í dag í aðgerð á baki vegna árásarinnar. Marí er á láni hjá ítalska liðinu Monza.

Tveir af þeim særðu eru í lífshættu en árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum. Hann er 46 ára og á við geðræn vandamál að stríða, búið er að útiloka að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

„Ég er heppinn að vera á lífi, ég sá einstakling deyja fyrir framan mig," sagði Marí við La Gazzetta dello Sport.

Hann var að versla ásamt eiginkonu sinni og syni, sem var í vagni. Skyndilega fann hann fyrir sársauka í baki og sá svo árásarmanninn skera annan einstakling á háls.

Adriano Galliani, forseti Monza, heimsótti Marí á sjúkrahúsið. Hann segir að leikmaðurinn muni ná sér að fullu.

„Pablo er ótrúlegur náungi. Hann var með styrk til að slá á létta strengi og tilkynnti mér að hann kæmi aftur til æfinga eftir helgi. Ég færði honum kveðjur frá Silvio Berlusconi (forseta félagsins) og öðrum hjá félaginu. Liðsfélagar hans vildu koma en það var ekki hægt," sagði Galliani.

Corriere della Sera segir að Massimo Tarantino, fyrrum leikmaður Napoli og Inter, hafi verið meðal þeirra sem hafi stöðvað árásarmanninn og yfirbugað hann.