þri 01.nóv 2022
Eyþór Wöhler: Fyrst og fremst Óskar Hrafn Þorvalds
Þegar Breiðablik bankar á dyrnar er erfitt að horfa framhjá því
„Þeir heyrðu í umboðsmanni mínum og spurðust fyrir um mig. Ég taldi þetta vera virkilega spennandi tækifæri að fá að spila með besta liði Íslands, var ekki lengi að hugsa mig um og hoppaði raunverulega bara á þetta. Vonandi er það bara heillaskref fyrir mig," sagði Eyþór Aron Wöhler sem í gær var tilkynntur sem nýr leikmaður Breiðabliks.

„Tilfinningin er geggjuð, allt í kringum þennan klúbb er bara geggjað. Ég bíð spenntur eftir því að fá að byrja og láta til mín taka."

Hvað heillar mest við Breiðablik?

„Fyrst og fremst þjálfarinn, Óskar Hrafn Þorvalds. Þegar ég talaði við hann þá var ég strax heillaður. Allt sem maður sér af honum, í viðtölum og öllu því, það er frábært að hlusta á hann. Ég var ekki lengi að hugsa mig um að hoppa yfir í Kópavoginn. Svo heillar leikstíllinn líka, liðið spilar dúndrandi sóknarbolta - skemmtilegan bolta."

Hvað finnst Eyþóri hann þurfa að gera betur í sínum leik?

„Fyrst og fremst ákvarðanatökur á sóknarhelmingi. Það er eitthvað sem Óskar og Dóri geta hjálpað mér að bæta mig í. Líka ákvarðanatökur yfir höfuð, stýra mér aðeins betur og vera ekki að hlaupa eins og hauslaus hæna."

Eyþór segir að Stjarnan og Keflavík hafi einnig sýnt sér áhuga en það hefði ekki farið langt. Í viðtalinu fer Eyþór yfir tímabilið með ÍA. Hann skoraði níu mörk í 25 leikjum en niðurstaða liðsins var fall niður í Lengjudeild.

„Þegar Breiðablik bankar á dyrnar er erfitt að horfa framhjá því. Það skipti ekki máli hvort ÍA hefði verið uppi eða niðri," sagði Eyþór um sína ákvörðun að fara í Breiðablik.

Hann segir að það sé ekki spurning að hann dreymi um að fara út í atvinnumennsku. „Það er alltaf stefnan að fara sem lengst og taka skrefið erlendis. Ég stefni klárlega á það og vonandi næ ég því sem fyrst."

Viðtalið við Eyþór má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.