fös 04.nóv 2022
Adam Örn: Væri fínt að fá já eða nei frá Breiðabliki
Var hjá Breiðabliki fyrri hluta móts.
Ég er ekki búinn að heyra neitt sjálfur frá þeim. Það væri fínt að fá já eða nei, það er ekki komið ennþá. En miðað við það sem maður hefur lesið í fréttum hjá ykkur þá lítur það ekki þannig út
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í rútunni á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll kom þetta Leiknisdæmi upp og ég varð eftir
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Í Leikni eru geggjaðir gæjar og hópurinn góður.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Að fá ekki þessa útrás sem maður er vanur að fá í fótboltanum. Þetta var meira núllstilling og koma sér aftur í gang.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Adam Örn Arnarson samdi við Breiðablik fyrr á þessu ári og var í leikmannahópi liðsins fyrri hluta tímabilsins. Adam fékk ekki mikið að spila, hafði misst af undirbúningstímabilinu og glímdi við meiðsli á köflum.

Adam, sem er 27 ára bakvörður, var að koma heim í uppeldisfélagið eftir mörg ár í atvinnumennsku þar sem hann hafði leikið í Hollandi, Danmörku, Póllandi og Noregi.

Hélt hann fengi fleiri mínútur
„Þetta var frekar erfitt, ég kom seint inn í þetta, missti af undirbúningstímabilinu og var að fá smá tognanir þar sem ég kom beint inn í æfingarnar hjá liðinu. Ég hélt ég myndi spila meira, það er eins og það er, veit ekki af hverju ég spilaði ekki meira. Höggi (Höskuldur Gunnlaugsson) var að standa sig mjög vel en ég hélt að ég myndi fá fleiri mínútur hér og þar, en það gerðist ekki," sagði Adam.

„Ég var alltaf að vonast til að það kæmi eitthvað spennandi úti, það er hægt að segja að maður hafi beðið of lengi. Svo fékk ég bara samning frá Breiðabliki þegar ég þurfti að taka ákvörðun ef maður ætlaði að vera með í einhverju. Mér leist vel á það að koma mér í gang þar og reiknaði með að ég myndi fá einhverjar mínútur þó að ég væri að fara í samkeppni við fyrirliðann. Ég vissi að það yrði erfitt að fleygja honum úr liðinu eða setja hann í aðra stöðu."

„Ég get ekki sagt borðliggjandi, það var erfið ákvörðun, fyrsta skipti sem ég kem heim í tíu ár (fór til NEC í Hollandi 2013). Það var ekki létt ákvörðun en ákvörðun sem ég varð að taka. Ef maður er að koma heim þá er gaman að koma heim í Breiðablik, þó að þetta hafi farið eins og það fór."

„Ég get ekki sagt að það hafi verið vonbrigði (að koma heim), maður er alltaf með sína drauma og ég ætlaði mér lengra. Síðustu tvö ár á undan þessu voru erfið upp á leiki og andlegu hliðina að gera. Það tekur á að vera meiddur, að vera ekki að spila og alltaf uppi í stúku. Að fá ekki þessa útrás sem maður er vanur að fá í fótboltanum. Þetta var meira núllstilling og koma sér aftur í gang, myndi ekki segja vonbrigði.


Varð eftir á Keflavíkurflugvelli
Adam ákvað að fara á lán til Leiknis á lokadegi gluggans. Hvernig kom það til?

„Þetta var svo sem ekki langur aðdragandi. Deginum áður glugginn lokar finnst mér ég fá þannig 'vibe' frá Breiðabliki að ég sé ekki að fara spila mikið. Ég vildi frekar fara á lán. Ég átti samtal við Óskar (Hrafn Þorvaldsson) daginn fyrir lokun fyrir glugga og þetta var dagurinn áður en við (Breiðablik) vorum að fara út til Svartfjallalands (til að mæta Budocnost í forkeppni Sambandsdeildarinnar). Í rútunni á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll kom þetta Leiknisdæmi upp og ég varð eftir."

Hvernig voru þessir mánuðir með Leikni?

„Þessi tími var náttúrulega erfiður, alltaf erfitt að fara í botnbaráttu og maður er líka að koma seint inn í hlutina þar - inn í lið sem maður þekkir ekki. Í Leikni eru geggjaðir gæjar og hópurinn góður. Liðið var ekki með sjálfstraustið í botni eftir erfitt gengi."

Er eitthvað sem öskrar á þig sem vantaði upp á svo liðið gæti haldið sér uppi?

„Maður vill ekki vera vitur eftir á að benda á eitthvað en það var náttúrulega lítið sjálfstraust í liðinu og svo vorum við ekki heppnasta liðið með meiðsli heldur. Það var mikið um höfuðmeiðsli sérstaklega. Ég veit ekki hvaða álög eru á Leikni eiginlega, það er einhvern veginn annar hver maður að díla við heilahristing og eitthvað svoleiðis. Það hjálpaði að sjálfsögðu ekki. Það voru miklar róteringar sem ég held að hafi líka sett strik inn í reikninginn."

„Veit að þegar ég er í standi þá get ég gert meira"
Adam kom við sögu í tíu deildarleikjum með Leikni, eftir að hafa einungis spilað fimmtán mínútur með Breiðabliki fyrri hluta tímabilsins. Var hann ánægður með það sem hann náði að færa Leiknisliðinu?

„Maður vill alltaf gera betur en eftir á að hyggja, miðað við leikform - ekki spilað mikið síðustu tvö ár, þá var þetta bara nokkuð gott. Ég er ekki ósáttur en ég veit að þegar ég er í standi þá get ég gert meira. Ég er ánægður að hafa gefið allt í þetta og reynt að gefa allt í þetta þó að það hafi ekki tekist að halda liðinu uppi."

Adam segir að skrokkurinn á sér sé mjög góður. Hann náði að spila síðustu fimm leiki mótsins „Það sýnir mér að ég er ekki búinn, það er nóg eftir í þessu. Skrokkurinn er góður og mig langar að gera hann ennþá betri."

Hvað tekur við?

„Ég er bara að skoða í kringum mig og sjá hvað er í boði og meta hvað mér líst á af því sem er í boði. Það væri fínt að ná loksins einu undirbúningstímabili með einhverju liði og taka alvöru tímabil. Það er það sem gerir mig spenntan."

Samningur Adams við Breiðablik rann út eftir tímabilið. Er útilokað að hann verði þar áfram?

„Ég verð bara að viðurkenna það að ég veit ekki neitt. Eins og þetta lítur út núna þá lítur það ekki út fyrir það, bara miðað við það sem maður sér í fréttum. Ég er ekki búinn að heyra neitt sjálfur frá þeim. Það væri fínt að fá já eða nei, það er ekki komið ennþá. En miðað við það sem maður hefur lesið í fréttum hjá ykkur þá lítur það ekki þannig út (að ég verði áfram í Breiðabliki)."

Lifir atvinnumennsku draumurinn ennþá? „Hann deyr aldrei, maður heldur alltaf áfram að dreyma," sagði Adam að lokum.

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.