þri 08.nóv 2022
Venni vildi vera skipstjórinn - „Ég á nógan tíma"
Sigurvin Ólafsson.
„Mér líst mjög vel á að vinna með Heimi, þekki Heimi ágætlega og það hefur ekki farið framjá mér að hann er með gríðarlega reynslu og er gríðarlega farsæll. Ég hlakka mikið til að starfa með honum," sagði Sigurvin Ólafsson sem verður í teymi með Heimi Guðjónssyni sem í dag var tilkynntur sem nýr þjálfari FH.

Venni, eins og Sigurvin er oft kallaður, var ráðinn til FH á miðju tímabili og kom þá inn sem aðstoðarmaður Eiðs Smára Guðjohnsen. Eiður Smári steig svo til hliðar í október og þá tók Venni við sem aðalþjálfari.

„Hann er aðalþjálfarainn, er að fronta þetta. Ég er að þjálfa með honum, getur kallað þetta aðstoðarþjálfari eða hvað sem er. Eðlilega er hann skipstjórinn," sagði Venni sem hefði sjálfur verið til í að vera skipstjórinn. „Klárlega, ég er með metnað og var einn eftir um tíma undir lokin (á tímabilinu). Ég hefði alveg verið til í það en ég á nógan tíma."

Venni stýrði FH í síðustu fjórum leikjunum og þá bjargaði FH sér frá falli. FH vann tvo fyrstu leikina en töpuðu svo síðustu tveimur þegar sætið í Bestu deildinni var svo gott sem í tryggt.

Í viðtalinu ræddi Venni einnig um nýjan styrktarþjálfara, leikmannahópinn hjá FH og ýmislegt fleira.