lau 19.nóv 2022
Sindri talar mjög opinskátt um stöðuna í Keflavík: Tel það vera peningavandamál sem er mjög súrt
Verið hjá Keflavík allan sinn feril.
Ég komst að því að FH væri sá kostur sem ég vildi taka
Mynd: FH

Tók þátt í sínu fyrsta A-landsliðsverkefni fyrr í þessum mánuði.
Mynd: KSÍ

Keflavík er á krossgötum og þurfti að bæta í til að geta farið hærra, fara í meiri baráttu, jafnvel stefnt á topp fjóra eða halda því sem er.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þetta var rosalega erfið ákvörðun, ég er Keflvíkingur í húð og hár og kem að miklu innan félagsins
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson var í vikunni tilkynntur sem nýr leikmaður FH. Sindri hefur leikið allan sinn feril með Keflavík en ákvað að söðla um eftir síðasta tímabil og skrifaði undir í Hafnarfirði. Sindri er fyrrum unglingalandsliðsmaður, hann er 25 ára og hefur frá árinu 2014 verið í meistaraflokki Keflavíkur.

„Ég var búinn að funda aðeins með FH, Keflavík og öðrum liðum. Ég var búinn að hugsa þetta vel og lengi, tók mér minn tíma í þá ákvörðun sem ég vildi taka. Ég tók enga fljótlega ákvörðun, settist niður með mínu fólki og ræddi hvað væri skynsamlegast. Ég komst að því að FH væri sá kostur sem ég vildi taka," sagði Sindri í ítarlegu viðtali við Fótbolta.net í dag.

„Metnaðurinn og aðstæðurnar, innviðurinn hjá FH er rosa sterkur. Ég tók eftir því þegar ég labbaði inn í Kaplakrika, það er allt rosa flott og vel tekið á móti manni. Æfingaaðstæður, klefi, allt til fyrirmyndar og það heillaði mjög mikið."

„Samtalið við Davíð Viðars (yfirmann fótboltamála), hann setti þetta vel á borðið. Hann er með mikinn sannfæringarmátt, bæði inn á vellinum þegar hann var leikmaður og núna þegar hann er í þessari stöðu. Ég ber mikla virðingu til Davíðs og hann náði að sannfæra mig."


Hefði viljað sjá Keflavík leggja meira í sölurnar
Af hverju ertu að fara frá Keflavík?

„Samningurinn minn var laus í fyrsta skiptið á ferlinum. Ég er búinn að eiga tvö góð tímabil í röð með Keflavík og vildi skoða hvaða möguleika ég hafði. Ég vildi heldur alls ekki útiloka Keflavík á einn eða neinn hátt. Síðan skoðaði ég mína möguleika. Þetta var tíunda meistaraflokkstímabilið mitt, hvort sem það er aðal- eða varamarkmaður og ég tel það helvíti gott í Keflavíkurbúningnum þar sem mikið hefur gengið á. Ég ákvað að það væri kominn tími á eitthvað nýtt."

„Þetta var rosalega erfið ákvörðun, ég er Keflvíkingur í húð og hár og kem að miklu innan félagsins. Ég persónulega hefði viljað að við hefðum náð að halda betur í alla leikmenn, leggja meira í sölurnar, því við vorum á krossgötum. Við enduðum í 7. sæti með fleiri stig en liðið í 6. sæti. Það er besta tímabil frá 2009, og frábært að fá að taka þátt í því. En við erum að missa helvíti mikið af kjarnanum okkar og það tel ég vera peningavandamál sem er mjög súrt. Ef Keflavík hefði getað bætt í þá hefðum við getað farið helvíti langt með þetta lið."


Sindri ræðir í viðtalinu um nýliðið tímabil, umtalið um liðið komandi inn í tímabilið og komu Úkraínumannsins Ivan Kaliuzhnyi sem lék með liðinu fyrri hluta tímabilsins.

Hann ræðir einnig um áhuga KA og KR á sér og gefur innsýn inn í þróun mála varðandi áhuga KR á sér.

Leiðinlegt að það hafi ekki verið hægt að bæta í
Sindri nefndi peningavandamál í Keflavík, finnst honum það mikið áhyggjuefni?

„Það fá allir greidd sín laun og allt svoleiðis, en eins og Siggi Raggi hefur komið inn á í viðtölum þá er dálítið gap að myndast milli topp fimm-sex félaganna og hinna. Við (Keflavík) erum með minna 'budget' en önnur lið. Keflavík er á krossgötum og þurfti að bæta í til að geta farið hærra, fara í meiri baráttu, jafnvel stefnt á topp fjóra eða halda því sem er. Keflavík er með gott lið, bara leiðinlegt að það hafi ekki verið hægt að bæta í. Þetta er alltaf erfitt að að afla peninga fyrir stjórnir, ég er 'involveraður' í Keflavík og veit að þetta er erfitt, en það er ekki hægt að væla yfir því að þetta sé erfitt."

„Það þarf að bæta í, þetta er stórt félag og maður sér að önnur lið, Víkingur, Breiðablik, Valur... Valur var einu sinni í fjárhagsvandræðum. Það er ekki vælt á þessum stöðum, heldur gefið í. Ég er ekki að segja að það sé mikill væll í Keflavík, stjórnin hefur 100% lagt sig fram, en það þarf að koma meira inn svo liðið geti stefnt hærra. Ef við Keflavík ætlar að vera í efstu deild, og ekki bara í endalausri fallbaráttu. Við getum mögulega haldið okkur í deildinni með þetta 'budget', en ef við ætlum að fara með Keflavík þar sem mér finnst Keflavík eiga heima - topp fimm og Evrópubaráttu - þá þarf að bæta í."


Margir farnir og þeim gæti fjölgað
Að mati fréttaritara eru fjórir algjörir lykilpóstar farnir frá Keflavík, Adam Ægir Pálsson er farinn aftur í Víking, Sindri er farinn í FH, Rúnar Þór Sigurgeirsson er farinn til Öster í Svíþjóð og í dag var fjallað um að Patrik Johannesen sé að fara til Breiðabliks fyrir metfé. Sindri nefnir svo annað nafn sjálfur í viðtalinu. Þá eru lykilleikmenn ekki búnir að framlengja samninga sína þegar þetta er skrifað og óvíst hvort þeir verði áfram, það eru þeir Dani Hatakka og Joey Gibbs.

Hefur Sindri áhyggjur af Keflavík?

„Það er vissulega búið að kvarnast svolítið úr liðinu, við vissum að Adam Ægir væri að fara til baka í Víking, við missum hann í raun ekki því hann var samningsbundinn Víkingi. Í honum erum við að missa fjórtán stoðsendingar og sex-sjö mörk. Patrik hefur verið orðaður við Breiðablik, það hafa verið mörg tilboð frá Breiðabliki og þeir vilja virkilega fá hann. Ég skil það vel, frábær fótboltamaður og það sést þegar hann er á leiknum sínum, þá stoppar hann enginn. Síðan er Adam Árni (Róbertsson) farinn og Rúnar Þór. Við vissum að hann væri að fara í atvinnumennsku, hann er það góður."

„Ég hugsa að ef við hefðum misst Rúnar Þór og Adam, þá hefði verið auðvelt að fá menn inn þegar tveir menn fara. En það verður erfitt þegar það eru fimm, sex byrjunarliðsmenn farnir úr liðinu. Siggi Raggi er reyndar frábær að fá menn inn, það sést á undanförnum árum, og Eysteinn með honum árin á undan. Við höfum fengið góða útlendinga og Íslendinga í liðið. Mesta áskorunin fyrir Sigga Ragga er að finna leikmenn sem eru álíka góðir og þeir sem eru farnir, eða betri."


Í viðtalinu talar Sindri meira um FH, bróður sinn Ísak Óla, fyrsta A-landsliðsverkefnið og mögulega atvinnumennsku. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst í fréttinni.