þri 22.nóv 2022
Inaki Williams valdi Gana fyrir níræðan afa sinn
Mynd: EPA

Mynd: EPA

Framherjinn knái Inaki Williams valdi að spila með Gana á HM í Katar. Williams er 28 ára gamall og hefur aðeins spilað þrjá landsleiki með Gana - alla í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið.Williams, sem á einn vináttulandsleik að baki fyrir Spán eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur í U21 landsliðinu, segir að ákvörðunin hafi verið afar erfið. Að lokum var það afi hans frá Gana sem sannfærði hann.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir mig. Ég ræddi við fjölskylduna eftir að ég fékk landsliðskallið og það sem gerði útslagið voru samræður við afa. Hann er 90 ára gamall og á ekki langt eftir ólifað, en þegar við hittumst óskaði hann sér að sjá mig spila á HM með Gana áður en hann kveður," sagði Williams.

„Eftir að hann sagði þessi orð við mig varð ákvörðunin auðveld. Þetta er ákvörðun sem ég tók með hjartanu og mér er sama hvað fólk gæti hugsað eða sagt. Að ég sé bara að spila fyrir Gana því þeir komust á HM."

Williams hefur áður fengið landsliðskall frá Gana en hafnaði því og útskýrði í viðtali á sínum tíma að honum liði ekki vel með að taka landsliðssætið af leikmanni sem liði 100% eins og Ganverja. Williams er fæddur og uppalinn í Baskalandi.

Nico Williams, tvítugur yngri bróðir Inaki, fer með spænska landsliðinu á HM og gætu bræðurnir mæst ef Spánn og Gana komast í gegnum riðlakeppnina og 16-liða úrslitin. Það yrði afar áhugaverð staða sem hefur áður komið upp, þegar Kevin-Prince Boateng mætti hálfbróður sínum Jerome Boateng í viðureign Gana gegn Þýskalandi 2010.

Báðir foreldrar Williams bræðranna eru frá Gana og eiga þeir því sterkar rætur að rekja til Afríku. Bræðurnir hafa alltaf talað Twi við foreldra sína, tungumál sem er talað víða í Gana, og þá eru þeir vanir að borða hefðbundinn ganverskan mat.

„Þó að ég hafi ekki fæðst í Gana þá er blóðið mitt og fjölskylda þaðan. Í raun og veru er þetta 50-50 tilfinning fyrir mig þó ég hafi alist upp á Spáni."

Nico og Inaki eru samherjar hjá Athletic Bilbao í spænska boltanum og geta leikið í flestum stöðum í sóknarlínunni.