þri 22.nóv 2022
Óli Kristjáns: Ótalmargt sem danska liðið þarf að laga
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson varð fyrir vonbrigðum með spilamennsku danska landsliðsins sem gerði markalaust jafntefli gegn Túnis í fyrsta leik sínum á HM.

Ólafur þekkir danska boltann út og inn en hann þjálfaði Nordsjælland, Randers og Eesbjerg þar í landi.

„Jafntefli er enginn heimsendir en spilamennska Dana var döpur. Þeir ná aldrei takti. Leikplan Túnisa gekk upp en Danir áttu fá svör og skiptingarnar breyttu litlu," sagði Ólafur í HM-stofunni á RÚV.

„Mér fannst Danir finna samherja illa, þetta var stirrt og hægt. Þeir verða að gera mun betur"

„Óskiljanlegt að (Andreas) Cornelius hafi ekki náð að setja boltann inn. En það er margt sem er óskiljanlegt," sagði Ólafur um dauðafæri sem danska liðið fékk í seinni hálfleik.

„Það er ótalmargt sem þeir þurfa að laga, meðal annars að finna Eriksen. Mér fannst vængbakverðirnir Kristensen og Mæhle ekki ná sér á strik. Skov Olsen hékk of lengi inná, Lindström sem hefur spilað vel í Bundesligunni hefði átt að koma fyrr inn á að mínu mati. Það var margt taktlaust hjá þeim, margir ryðgaðir."