þri 22.nóv 2022
Vanda sér ekki eftir vináttuleiknum - „Kannski er þetta barnalegt"
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Sádí-Arabía fagnar sigri gegn Argentínu á HM í dag.
Mynd: Getty Images

Það þótti mjög umdeilt á dögunum þegar KSÍ samþykkti að leika vináttulandsleik gegn Sádí-Arabíu.

Það myndaðist mikil umræða í kringum þann leik og var talað um að þarna hafi við verið að taka þátt í hvítþvætti í gegnum íþróttir.

Það voru sögusagnir um það að KSÍ hefði fengið um 100 milljónir króna borgað til þess að spila leikinn, en sambandið vildi ekki gefa upp upphæðina.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, var í viðtali hjá RÚV í gær þar sem hún var spurð út í þennan leik. Var hún spurð að því hvort hún sæi eftir því að þessi leikur hefði verið samþykktur.

„Nei," sagði Vanda við þeirri spurningu og bætti við: „En ég viðurkenni að þetta hafi verið erfitt og ég hef fengið efasemdir. Ég skil gagnrýnina mjög vel."

„Þetta er erfitt og flókið. Ég skil að margir séu fúlir, en ég ákvað þegar ég fór í þetta starf að vera sjálfri mér trú. Ég trúi á samtali. Þetta er ekki afsökun. Ég hef unnið við þetta í mörg ár og kennt þetta: Mikilvægi samtalsins."

Vanda talaði um það í viðtali að hún hefði komist að því að Sádí-Arabía væri að byrja með kvennalandslið, en réttindi kvenna í landinu hafa ekki verið í hávegum höfð. Það er vægt til orða tekið. Vanda segist hins vegar trúa á samtalið.

„Ég vildi styðja og styrkja þetta. Ég trúi á það að mannréttindi og staða kvenna haldist hönd í hönd. Ef við getum bætt stöðu kvenna þá held ég að það hafi jákvæð áhrif á mannréttindi. Við sem fótboltasamband vildum gera þetta með sambandinu í Sádí-Arabíu," segir Vanda.

Hún talaði um það að hún ætlaði að fara út með ákveðin skilaboð en komst hún ekki vegna meiðsla. Hún segist hafa fundað fyrr í þessari viku með mönnum í Sádí-Arabíu og ætlar að taka sérstakan fund með þeim sem starfa í kvennaboltanum þar í landi. Henni langar að hjálpa fótboltastelpunum í Sádí-Arabíu.

„Kannski er þetta barnalegt hjá mér, en þetta er bara ég."

Hún vildi áfram ekki segja hvað KSÍ fékk greitt fyrir þennan leik, verður það áfram leyndarmál. Hún segir upphæðina ekki vera nálægt 100 milljónum. „Þetta eru trúnaðarsamningar en ég get sagt að þetta sé rétt rúmlega kostnaður... þessar sögur sem gengu voru fjarri sannleikanum," sagði Vanda.

Hægt er að skoða viðtalið í heild sinni með því að smella hérna.