þri 22.nóv 2022
Afturelding fær Ásgeir Marteinsson frá HK (Staðfest)

Afturelding er búið að krækja í kant- og miðjumanninn öfluga Ásgeir Marteinsson sem hefur leikið með HK undanfarin ár. Hann skrifar undir tveggja ára samning við Mosfellinga, sem gildir út keppnistímabilið 2024.Ásgeir er 28 ára gamall og hefur skorað 66 mörk í 262 keppnisleikjum skráðum hjá KSÍ.

Ásgeir hóf ferilinn hjá HK en stoppaði stutt hjá Fram og ÍA áður en hann sneri aftur í Kópavoginn 2017. Nú er hann spenntur að reyna fyrir sér á nýjum slóðum.

„Þetta er virkilega spennandi verkefni sem er í gangi hérna í Mosó. Ég hef fulla trú á því að liðið geti náð betri árangri en síðustu ár. Ég vil vera partur af því að klúbburinn taki næsta skref," sagði Ásgeir við undirskriftina.

Ásgeir skoraði 6 mörk í 21 leik er HK fór upp úr Lengjudeildinni í sumar. Afturelding endaði í áttunda sæti, með 29 stig úr 22 leikjum.