mið 23.nóv 2022
Glazer fjölskyldan íhugar að selja Man Utd

Bandarískir eigendur Manchester United, Glazer fjölskyldan, hafa staðfest að þeir séu að íhuga sölu á félaginu.Þetta er fagnaðarefni fyrir marga stuðningsmenn Man Utd sem eru ekki sáttir við eignarhald Glazer fjölskyldunnar og vilja losna við hana sem fyrst. Fjölmörg mótmæli hafa átt sér stað og beinst að eigendunum.

Glazer keypti Man Utd fyrir rúmlega 17 árum síðar og í tilkynningu félagsins segir að verið sé að skoða að selja félagið eða hlut í því sem liður í frekari fjármögnun fyrir framtíðarhorfur félagsins.

Fyrir tíu árum seldi Glazer fjölskyldan 10% af hlut sínum og hefur síðan þá haldið áfram að selja hluti sína í félaginu en aðeins í smáum skömmtum.

Í frétt BBC er tekið fram að Glazer fjölskyldan gæti verið reiðubúin til að selja félagið í heild sinni fyrir rétta upphæð en í tilkynningunni kemur fram að í öllu ferlinu verði gætt að hag félagsins og stuðningsmanna.

The Raine Group, sem sá um söluna á Chelsea fyrr á þessu ári, hefur tekið að sér ráðgjafahlutverk í þessu ferli og ljóst að Glazer fjölskyldan áætlar að losa félagið úr sínum höndum.