mið 23.nóv 2022
Kompany vill ekki Ronaldo: Þarf leikmenn sem geta hlaupið

Fótboltaheimurinn bíður spenntur eftir fregnum af framtíðaráformum Cristiano Ronaldo eftir að hann samdi við Manchester United um starfslok.Ronaldo verður 38 ára í febrúar og er frjáls ferða sinna eftir samningsriftunina. Ronaldo bolaði sjálfum sér frá félaginu með ítarlegu viðtali við Piers Morgan þar sem hann gagnrýndi félagið harkalega.

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, starfar einnig sem knattspyrnusérfræðingur hjá BBC og var spurður í beinni útsendingu hvort hann myndi vilja fá Ronaldo til félagsins.

Spurningin var augljóslega ekki alvarleg þar sem Ronaldo myndi aldrei sætta sig við að spila fyrir Burnley en Kompany gaf skemmtilegt svar og glotti: „Við þurfum leikmenn sem geta hlaupið."

Hann hélt áfram að tala um málið og sagði að Erik ten Hag knattspyrnustjóri sé sá eini sem kom vel út úr þessu öllu saman.

„Ég held að allir tapi útaf þessu máli, allir nema kannski stjórinn hjá Manchester United. Fyrir honum er þetta vandamál leyst og ég er viss um að hópurinn verði fljótur að jafna sig á þessu."

Newcastle og Al-Nassr hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir áfangastaðir fyrir Ronaldo auk Sporting CP og Chelsea sem höfðu áður verið nefnd.