mið 23.nóv 2022
Meistaradeild kvenna í dag - Sveindís til Rómar og risaslagur í London

Það er ekki bara HM karla á dagskrá í dag heldur einnig Meistaradeild kvenna og þar má finna Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllur í liði Wolfsburg.Wolfsburg heimsækir AS Roma til Ítalíu í toppslagi B-riðils en þýska liðið er talið vera heilum gæðaflokk ofar heldur en það ítalska. Sveindís Jane Jónsdóttir er leikmaður Wolfsburg og kemur yfirleitt inn af bekknum í síðari hálfleik.

Hún átti flottan leik um helgina þar sem hún var í byrjunarliðinu og skoraði og lagði upp í 16-liða úrslitum þýska bikarsins.

Á sama tíma fer risaslagur fram í dauðariðlinum, A-riðli, þar sem Chelsea og Real Madrid eigast við í toppslag. Chelsea er með sex stig á meðan Real hefur fjögur, en franska stórveldið Paris Saint-Germain er einnig í riðlinum, aðeins með eitt stig eftir jafntefli við Real.

PSG tekur á móti Vllaznia í dag á meðan Slavia Prag og St. Pölten mætast í botnslag B-riðils.

Leikir kvöldsins:
17:45 Slavia Prag - St. Polten
17:45 PSG - Vllaznia
20:00 Chelsea - Real Madrid
20:00 Roma - Wolfsburg