mið 23.nóv 2022
Flutti úr landi til að fá tækifæri og stýrir nú liði á HM
Saga John Herdman er áhugaverð.
Alphonso Davies.
Mynd: Getty Images

Davíð Snorri Jónasson var sérfræðingur í HM hringborðinu sem kom inn í gærkvöldi og talaði þar meðal annars um John Herdman, þjálfara kanadíska landsliðsins.

Saga Herdman er áhugaverð en hann er 47 ára Englendingur sem ákvað að flytja úr landi þar sem hann taldi sig ekki geta fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína í heimalandinu.

Herdman átti engan leikmannaferil en þjálfaði í akademíu Sunderland og fluttist svo til Nýja-Sjálands þar sem hann menntaði sig frekar í þjálfun og var svo ráðinn þjálfari kvennalandsliðs þjóðarinnar.

Í kjölfarið var hann svo ráðinn til kanadíska kvennalandsliðsins þar sem hann náði áhugaverðum árangri. Hann tók bronsverðlaun með liðinu á Ólympíuleikunum 2012 og 2016.

Hann bjó til góða umgjörð og öfluga liðsheild hjá kvennalandsliðinu og var ráðinn sem þjálfari karlalandsliðsins 2018 til að gera slíkt hið sama. Enski þjálfarinn breytti einstaklingum í lið.

„Ég þarf að klípa sjálfan mig af og til. Þetta er óraunverulegt," segir Herdman sem stýrir Kanada í kvöld gegn Belgíu á 44 þúsund manna leikvangi á HM í Katar.

Skærasta stjarnan kom til Kanada sem flóttamaður
Kanada er með ungt og spennandi lið þar sem stærstu nöfnin eru Alphonso Davies og Jonathan David. Davies er 22 ára vinstri bakvörður hjá Bayern München en hjá Kanada spilar hann mun framar.

Saga Davies er áhugaverð en foreldarar hans komu sem flóttamenn frá Gana til Kanada þegar að Davies var fimm ára gamall.

„Hann hefur breytt miklu fyrir Kanada. Hann er andlit nýja liðsins og hefur mjög sérstaka hæfileika," segir Herdman um Davies.