mið 23.nóv 2022
Danmörk ein af fjórum þjóðum sem styður Infantino ekki
Infantino með Vladímir Pútín, Rússlandsforseta.
Danir fagna marki.
Mynd: EPA

Infantino hefur verið forseti FIFA frá því árið 2016.
Mynd: Getty Images

Danska fótboltasambandið íhugar það núna að segja sig úr Alþjóðaknattspyrnusambandinu.

FIFA byrjaði vikuna á því að banna sérstök 'OneLove' fyrirliðabönd sem átti að nota til að mótmæla hvers kyns mismunun.


Hér má sjá regnbogaböndin sem átti að nota.

Mikið hefur verið fjallað um mannréttindabrot í Katar og þann mikla fjölda verkamanna sem hafa látið lífið við að byggja leikvanga og önnur mannvirki fyrir mótið. Samkynhneigð er þá bönnuð í Katar og tóku stjórnvöld þar í landi ekki vel í böndin. Því ákvað FIFA að banna þau.

Danir eru ekki sáttir með það hvernig FIFA hefur komið fram í þessu máli og íhugar nú að segja sig úr sambandinu. Þá er þýska sambandið að íhuga lögsókn út af málinu.

Danska sambandið segist ætla að ræða við önnur sambönd innan UEFA, evrópska sambandsins, um stöðuna hjá FIFA.

Jakob Jensen, framkvæmdastjóri fótboltasambandsins í Danmörku, segir að minnsta refsingin hjá FIFA við bandinu hafi verið gult spjald. Þá hafi stærri refsingum verið hótað.

Það er mikil reiði vegna málsins og ætlar danska sambandið ekki að styðja Gianni Infantino til áframhaldandi veru sem forseta FIFA. Jesper Moller, formaður danska fótboltasambandsins, segir að 207 af 211 samböndum muni styðja Infantino í kjörinu sem er framundan en hann er sá eini sem er að bjóða sig fram. Danmörk og Þýskaland eru á meðal þjóða sem styðja hann ekki.

Fótbolti.net hefur sent fyrirspurn á KSÍ um það hvort okkar samband ætli að styðja Infantino í endurkjöri en hann hefur fengið mikla gagnrýni á sig vegna þess hvernig hann og FIFA hafa komið fram í tengslum við mótið í Katar.