mið 23.nóv 2022
HM: Næst óvæntustu úrslitin á mótinu - Ótrúlegur viðsnúningur
Japan byrjar með stórkostlegum sigri.
Þjóðverjar voru yfir í hálfleik en köstuðu frá sér forystunni.
Mynd: Getty Images

Þýskaland 1 - 2 Japan
1-0 Ilkay Gundogan ('33 , víti)
1-1 Ritsu Doan ('75 )
1-2 Takuma Asano ('83 )

Hann var stórskemmtilegur, leikur Þýskalands og Japan á HM í Katar. Næst óvæntustu úrslitin á mótinu til þessa voru að eiga sér stað.

Óvæntustu úrslit mótsins verða eflaust ekki toppuð þar sem Sádí-Arabía vann sigur gegn Argentínu í gær.

Þjóðverjar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og þeir komust yfir er Ilkay Gundogan skoraði af vítapunktinum eftir að markvörður Japan braut af sér.

Þýskaland var að bíða eftir öðru markinu en leikurinn virtist breytast við það þegar Thomas Müller og Ilkay Gundogan fóru af velli nokkuð snemma í seinni hálfleik.

Japan, sem var bara 19 prósent með boltann í fyrri hálfleik, náði að jafna metin á 75. mínútu þegar Ritsu Doan skoraði og á 83. mínútu gerði Takuma Asano, sem leikur með Bochum í Þýskalandi, sigurmarkið.

Ótrúlegur viðsnúningur en það var mikill kraftur í Japönum síðasta stundarfjórðunginn. Þjóðverjar náðu ekki að mæta því og þess vegna eru þeir með núll stig eftir fyrstu umferð.

Spánn og Kosta Ríka mætast í þessum sama riðli á eftir klukkan 16:00.