fim 24.nóv 2022
Beckham opinn fyrir því að kaupa Man Utd
David Beckham
David Beckham, eigandi Inter Miami í Bandaríkjunum, segist opinn fyrir því að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United en þetta kemur fram í enskum miðlum í dag.

Beckham, sem er úr hinum fræga '92 árgangi hjá Manchester United, spilaði með liðinu til 2003 áður en hann gekk í raðir Real Madrid á Spáni.

Hann spilaði með Los Angeles Galaxy, Milan og Paris Saint-Germain svo áður en hann lagði skóna á hilluna og fór að einbeita sér að viðskiptaheiminum.

Beckham er eigandi og stofnandi Inter Miami í MLS-deildinni, en hann er sagður opinn fyrir því að kaupa Manchester United.

Glazer-fjölskyldan er reiðubúið að selja félagið og ljóst að áhuginn er mikill. Sir Jim Ratcliffe, einn auðugasti maður heims, ætlar að leggja fram tilboð í United en Beckham gæti nú tekið þátt í baráttunni.

Beckham hefur ekki efni á að ráðast einn í þetta verkefni en hann er opinn fyrir því að kaupa félagið með hjálp fjárfesta.

Samkvæmt Times er Beckham tilbúinn til að ræða við alla mögulega tilboðsgjafa en það gæti vegið þungt að vera með Beckham sem fremsta mann í viðræðum um kaup á Manchester United.