fim 24.nóv 2022
Augljóslega orðinn dauðþreyttur á spurningum um Ronaldo
Fernando Santos og Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo, maðurinn sem er til umræðu á öllum kaffistofum, hefur leik með portúgalska liðinu á heimsmeistaramótinu í Katar klukkan 16 í dag er þeir mæta Gana.

Þrátt fyrir að vera þessi mikla fótboltaþjóð hefur Portúgal aðeins tvívegis komist í undanúrslit á HM; 1966 og 2006. Í Rússlandi fyrir fjórum árum féll Portúgal út í 16-liða úrslitum gegn Úrúgvæ en liðin eru einmitt saman í riðli i þessari keppni.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo er eflaust að spila á sínu síðasta heimsmeistaramóti, en á fréttmannafundum fyrir mót hefur allt snúist um hann en ekki liðið.

Ronaldo fór í viðtal við Piers Morgan stuttu fyrir mót þar sem hann lét gamminn geysa. Í kjölfarið var samningi hans við Manchester United rift.

Það er spurning hvernig þessi umræða um Ronaldo hafi áhrif á hópinn, hvort hún trufli en allar spurningarnar eru augljóslega að fara í taugarnar á Fernando Santos, þjálfara Portúgal. Það má sjá á myndbandinu hér fyrir neðan.