lau 26.nóv 2022
Queiroz brjálaður yfir gagnrýni Klinsmann - Hvetur hann til að segja af sér
Carlos Queiroz landsliðsþjálfari Íran
Jurgen Klinsmann
Mynd: Getty Images

Jurgen Klinsmann gagnrýndi lið Íran fyrir hegðun leikmanna liðsins í sigrinum á Wales í gær. Klinsmann var sérfærðingur hjá BBC yfir leiknum.Hann segir að leikmennirnir hafi hagað sér illa í garð dómarans og hópast að honum í hvert einasta sinn sem tækifæri gafst.

„Þess vegna passar Carlos Queiroz svo vel inn í þetta landslið. Hann var í vandræðum í Suður Ameríku, komst ekki áfram með Kólumbíu né Egyptalandi," sagði Klinsmann.

„Þetta er engin tilviljun. Þetta er hluti af þeirra kúltúr og hvernig þeir spila, þeir espa dómarann upp fullkomlega. Bekkurinn var alltaf að stökkva upp og abbast í aðstoðardómaranum og fjórða dómaranum. Alltaf í andlitinu á þér."

Queiroz var alls ekki ánægður með þessi ummæli og skrifaði margar færslur á Twitter til Klinsmann.

„Skiptir engu máli hversu mikið ég virði það sem þú gerðir innan vallar, þessar staðhæfingar um íranskan kúltúr, íranska landsliðið og leikmennina mína er til skammar fyrir fótboltann," skrifaði Queiroz.

Klinsmann vinnur á vegum FIFA á HM þar sem hann sendir sambandinu leikgreiningarskýrslur af mótinu. Margir fyrrum leikmenn og þjálfarar eru í þeim hópi og greina alla leiki mótsins.

„Að því sögðu langar okkur að bjóða þér að koma á æfingasvæði landsliðsins, spjalla við íranska leikmenn og kynnast landinu í gegnum þá, fólkinu frá Íran, listina og gamlan persneskan kúltúr."

„Við viljum að FIFA skoði mál þín hjá sambandinu þar sem þú ert í greiningarteymi sambandsins á HM í Katar. Við viljum augljóslega að þú hættir áður en þú heimsækir okkur."