sun 27.nóv 2022
Serbar í vandræðum útaf fána í búningsklefanum

Serbneska landsliðið er í vandræðum eftir myndbirtingu frá búningsklefa liðsins á samfélagsmiðlum.Serbía er í G-riðli heimsmeistaramótsins og tapaði fyrir Brasilíu í fyrstu umferð. Fyrir leikinn hengdu landsliðsmenn Serbíu upp breyttan og niðrandi fána Kósovó í búningsklefanum en það hafa ríkt miklar erjur á milli þjóðanna á undanförnum árum, ekki síst eftir að Kósovó fékk viðurkenndan aðskilnað frá Serbíu. Þjóðirnar áttu í heiftarlegu stríði fyrir rúmum 20 árum síðan og hefur stór hluti heimsins viðurkennt aðskilnaðinn, en þó er enn stór hluti sem hefur ekki gert það. 

Knattspyrnusamband Kósovó hefur lagt inn formlega kvörtun til FIFA vegna fánans og er Alþjóða knattspyrnusambandið með málið til rannsóknar. Miklar líkur eru á því að Serbum verði refsað fyrir þennan fána sem hefur pólitíska merkingu.

Hajrulla Ceku, íþróttamálaráðherra Kósovó, segir að þjóðin vonist til að FIFA taki alvarlega á þessu máli. Hann segir fánann bera hatursfull og fordómafull skilaboð sem hvetji til þjóðarmorðs.

Dragan Stojkovic, landsliðsþjálfari Serba, neitaði að tjá sig um málið á fréttamannafundi fyrir mikilvæga næsta leik liðsins gegn Kamerún.