mán 28.nóv 2022
[email protected]
Mikael Brune og Lára Hafliðadóttir ráðin til Víkings
 |
Lára og Mikael sitthvoru megin við John Andrews, yfirþjálfara meistaraflokks kvenna. |
Víkingur R. hefur ráðið Mikael Brune og Láru Hafliðadóttur til starfa fyrir meistara- og 2. flokk kvenna.
Mikael mun sjá um styrktarþjálfun beggja flokka og aðstoða við líkamlegar mælingar en hann hefur lokið B.Sc námi í íþróttafræði við HR og var í starfsnámi hjá Guðjóni Erni, fitnessþjálfara meistaraflokks karla hjá Víkingi. Mikael sá um styrktarþjálfun hjá 3. og 4. flokki karla og kvenna á síðasta tímabili við góðan orðstír. Lára, sem á yfir 150 leiki að baki með meistaraflokki Víkings, verður með yfirumsjón og úrvinnslu á GPS mælingum ásamt því að sjá um líkamlegar mælingar. Hún mun starfa í nánu samstarfi með Mikael og veita ráðgjöf varðandi álagsstýringu, þol- og styrktarþjálfun kvennaliðsins. Lára er með meistaragráðu í Íþróttavísindum og þjálfun frá HR, KSÍ-B þjálfaragráðu auk annarra þjálfararéttinda. Lára hefur sérhæft sig í mælingum og styrktar- og þolþjálfun knattspyrnufólks sem hún kennir meðal annars á þjálfaranámskeiðum KSÍ. Hún starfar einnig hjá Greenfit þar sem hún aðstoðar m.a. knattspyrnufólk við að hámarka sína frammistöðu.
„Þessi viðbót við þjálfarateymið er liður í þeirri framþróun sem á sér stað innan félagsins þar sem áhersla er lögð á faglega þjálfun í takt við þá þróun sem á sér stað á líkamlega þættinum í knattspyrnuheiminum í dag," segir í yfirlýsingu frá Víkingi.
|