sun 27.nóv 2022
HM: Fullkrug bjargaði stigi fyrir Þjóðverja
Mynd: EPA

Spánn 1 - 1 Þýskaland
1-0 Alvaro Morata ('62)
1-1 Niclas Füllkrug ('83)Spánn og Þýskaland áttust við í fyrsta risaslag heimsmeistaramótsins og úr varð skemmtileg viðureign.

Staðan var markalaus í leikhlé en Spánverjar áttu betri fyrri hálfleik og komust nokkrum sinnum nálægt því að skora. Þjóðverjar áttu sínar rispur og setti Antonio Rüdiger boltann í netið en ekki dæmt mark vegna rangstöðu.

Þjóðverjar tóku völdin í síðari hálfleik en Alvaro Morata tók forystuna fyrir Spán, gegn gangi leiksins. Unai Simon varði nokkrum sinnum vel í marki Spánverja en kom engum vörnum við þegar þrumufleygur frá Niclas Fullkrug, leikmanni Werder Bremen, rataði í netið á lokakaflanum.

Staðan 1-1 og mikil spenna síðustu mínútur leiksins. Bæði lið komust í álitlegar sóknir en ekkert varð úr þeim og niðurstaðan 1-1 jafntefli. Leroy Sane komst næst því að gera sigurmarkið seint í uppbótartíma en missti boltann of langt frá sér.

Þetta þýðir að Þýskaland þarf sigur í lokaumferðinni gegn Kosta Ríka á meðan Spánverjum nægir jafntefli gegn Japan til að tryggja sig upp úr riðlakeppninni. Þjóðverjar gætu dottið úr leik með sigri gegn Kosta Ríka ef Japan sigrar gegn Spánverjum.

Endi tvö lið jöfn á stigum þá er það markatalan sem gildir á undan innbyrðisviðureignum. Ef markatalan er jöfn vega mörk skoruð þyngra heldur en innbyrðisviðureignir.

E-riðill:
1. Spánn 4 stig 8-1
2. Japan 3 stig 2-2
3. Kosta Ríka 3 stig 1-7
4. Þýskaland 1 stig 2-3