mán 28.nóv 2022
Brjálæði í Tyrklandi: Hættu leik eftir morðtilraun

Það voru vægast sagt ótrúlegar senur í næstefstu deild tyrkneska boltans þegar hætt var við leik Göztepe gegn Altay í dag.Það átti viðbjóðslegt atvik sér stað í fyrri hálfleiknum þegar stuðningsmenn gestaliðsins Altay skutu rakettu af áhorfendapöllunum. Þeir miðuðu rakettunni ekki á völlinn heldur yfir á stuðningsmannasvæði heimaliðsins og endaði hún í andliti stuðningsmanns.

Allt tiltækt gæslulið fór að hjálpa særða manninum og var leikurinn stöðvaður þar sem sjúkrabíll þurfti að komast inn á völlinn hið snarasta.

Einn stuðningsmaður Altay ákvað að nýta sér tækifærið meðan gæslan var að sinna öðrum málum. Hann hljóp inn á völlinn, greip hornfánann og hljóp svo aftan að markverði Göztepe.

Stuðningsmaðurinn tók að berja markvörðinn með hornfánanum og hæfði hann meðal annars í hausinn áður en tókst að stöðva hann.