mán 28.nóv 2022
Herdman lét sig hverfa að leikslokum: Mun taka tíma fyrir hann að læra
Zlatko Dalic stýrði Króatíu í 2. sæti á HM 2018.
Mynd: EPA

John Herdman, landsliðsþjálfari Kanada, fékk það heldur betur í bakið að hafa sagst ætla að 'ríða' Króötum þegar liðin myndu mætast í annarri umferð heimsmeistaramótsins.Kanada tók forystuna á 2. mínútu leiksins en eftir það völtuðu Króatarnir yfir Kanadamenn og unnu að lokum 4-1 sigur. Kanada er þar með dottið úr leik.

Herdman lét sig hverfa strax eftir tapið og óskaði Króötunum ekki til hamingju með sigurinn. 

„Ég sá þjálfarann ekki eftir leikinn. Hvort sem ég vinn eða tapa þá tek ég alltaf í höndina á andstæðingnum. Hann var ekki á svæðinu og þetta er augljóslega hans leið til að takast á við hlutina. Hann er augljóslega reiður," sagði Dalic.

„Hann er góður þjálfari, hann er í háum gæðaflokki, en það mun taka smá tíma fyrir hann að læra ákveðna hluti."

Kanada er dottið úr riðlinum á HM en mætir toppliði Marokkó í lokaumferð riðlakeppninnar á meðan Króatía spilar úrslitaleik við Belgíu um hvort liðið fer áfram ásamt Marokkó - nema að Kanadamenn geri Evrópuþjóðunum greiða með að leggja Marokkó að velli. Þannig gætu bæði Belgar og Króatar komist áfram með sigri Belga í innbyrðisviðureigninni.

Króötum nægir jafntefli gegn Belgíu til að tryggja sig í útsláttarkeppnina.

„Þetta verður erfiður leikur. Belgía þarf sigur en við munum líka spila uppá sigur. Við munum ekki gera nein stærðfræðidæmi eða önnur plön. Þetta verður erfiður leikur og við verðum að vinna. Það er ekki flóknara en það."

Sjá einnig:
Ætla að ríða Króötum í næsta leik - „Svo einfalt er það"
Skotið til baka á Herdman eftir að hann sagðist ætla að ríða Króötum
Dalic biður þjálfara Kanada um að sýna Króatíu virðingu eftir ummæli sín
Króatískur miðill spyr þjálfara Kanada hvort hann sé með hreðjar