mán 28.nóv 2022
Onana hent úr hópnum vegna ágreinings við þjálfarann
Andre Onana.
Markverðinum Andre Onana hefur verið hent út úr landsliðshópi Kamerún og spurning hvort hann muni koma meira við sögu á heimsmeistaramótinu sem núna stendur yfir.

Onana er ekki í leikmannahópnum gegn Serbíu í morgunsárið eftir að hafa byrjað í 1-0 tapinu gegn Sviss í fyrstu umferð riðilsins.

Ástæðan fyrir því að Onana er hent úr hópnum er sögð vera ágreiningur við þjálfarann, Rigobert Song.

Devis Epassy, sem leikur með Abha í Sádí-Arabíu, kemur inn í markið fyrir Onana.

Í umfjöllun fyrir mótið var Onana lýst sem lykilmanni í liði Kamerún. Leikur Kamerún og Serbíu hefst klukkan 10:00.