mán 28.nóv 2022
[email protected]
Talaði um að halda tryggð fyrir mánuði síðan
 |
Michael Beale. |
Michael Beale er að hætta sem stjóri QPR til þess að taka við Rangers í Skotlandi.
Frá þessu greinir Sky Sports.
Hinn 42 ára gamli Beale er mættur á æfingasvæði Rangers til að ganga frá ráðningunni. Búist er við því að hún verði jafnvel tilkynnt í dag, mánudag.
Giovanni van Bronckhorst var á dögunum rekinn eftir eitt ár sem stjóri hjá félaginu. Rangers er níu stigum á eftir toppliði Celtic í titilbaráttunni í Skotlandi.
Beale var aðstoðarstjóri Steven Gerrard hjá Rangers í þrjú ár. Hann hjálpaði liðinu að verða skoskur meistari.
Beale tók við QPR í ensku Championship-deildinni fyrir þessa leiktíð og hefur náð eftirtektarverðum árangri. Aston Villa og Úlfarnir höfðu áhuga á því að ráða hann en hann neitaði þeirra boðum af tryggð við verkefnið hjá QPR.
QPR var að berjast á toppnum þegar hann sagði þetta en árangurinn hefur ekki verið góður upp á síðkastið. Tryggðin var ekki meiri en þetta.
|