mán 28.nóv 2022
Jill Scott fylgdi í fótspor Harry Redknapp
Jill Scott.
Fyrrum fótboltakonan Jill Scott fór með sigur af hólmi í breska raunveruleikaþættinum 'I'm A Celebrity... Get Me Out Of Here!' en úrslitaþátturinn var í gær.

Scott lagði skóna á hilluna síðasta sumar eftir að hafa verið í enska landsliðshópnum sem fór alla leið á EM í sumar.

Hún er næst leikjahæsti leikmaður Englands og spilaði á tíu stórmótum. Þar á meðal á tveimur Ólympíuleikjum með Bretlandi.

Í þættinum tóku margir frægir einstaklingar þátt en þeir bjuggu saman í skógi í Ástralíu.

Keppendur þurftu að lifa af í skóginum og meðal annars borða óvenjulegan mat. Sjónvarpsáhorfendur gátu síðan kosið hvaða keppendur færu áfram í næstu umferð í hverjum þætti.

Scott hafði meðal annars betur gegn Matt Hancock, fyrrum heilbrigðisráðherra Bretlands, í úrslitaþættinum.

Árið 2018 fór Harry Redknapp með sigur af hólmi í þessum sama þætti.