mán 28.nóv 2022
Aðstoðarþjálfari Suður-Kóreu: Úrslitin voru ósanngjörn

Suður Kórea er í erfiðri stöðu eftir 3-2 tap gegn Gana í dag. Gana komst í tveggja marka forystu áður en Kórea náði að jafna en Gana skoraði svo sigurmarkið.Það vakti athygli eftir leikinn þegar starfslið Gana hópuðust að Son til að fá mynd af sér með honum. Son virtist alls ekki til í það þar sem hann var sár og svekktur eftir tapið.

Paulo Bento þjálfari Suður Kóreska liðsins fékk brottvísun undir lok leiksins svo Sergio Costa aðstoðarmaður hans fór í viðtöl eftir leikinn. Þar ræddi hann meðal annars Son.

„Þetta eru viðbrögð manns og liðs sem upplifði ósanngirni í lok leiks. Þetta eru eðlileg viðbrögð hjá þeim sem gerðu allt til að vinna en gátu það ekki. Við eigum að vera sorgmæddir og finna skort á réttlæti. Úrslitin voru ósanngjörn. Jafntefli hefði ekki einu sinni verið sanngjarnt, við áttum skilið að vinna," sagði Costa.