þri 29.nóv 2022
Naut þess að spila með Aftureldingu - Fór til baka og vann tvöfalt
Lék sex leiki með Aftureldingu fyrir EM hlé.
Bikarmeistari eftir sigur gegn uppeldisfélaginu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Og Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

'Eins og Pétur, hann er einfaldur maður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen er búin að semja við sænska félagið Örebro. Hún skrifar undir tveggja ára samning við félagið og fer út til Svíþjóðar á nýju ári.

Sólveig er 22 ára og getur leyst nokkrar stöður framarlega á vellinum. Hún hefur verið hjá Val undanfarin tvö tímabil en er uppalin hjá Breiðabliki. Þá hefur hún einnig leikið með Fylki og Aftureldingu á sínum ferli.

Hún fór til Aftureldingu fyrri hluta tímabilsins í ár til að fá fleiri mínútur á vellinum.

„Það var ótrúlega gaman, það eina sem ég var að hugsa um var að spila fótbolta og njóta og það er langskemmtilegast. Okkur gekk ekkert það vel en bara það að fá að spila níutíu mínútur fannst mér geggjað," sagði Sólveig við Fótbolta.net á dögunum.

Hún var svo kölluð til baka úr láni og spilaði seinni hluta tímabilsins með Val.

„Valur er mjög gott lið, ég vissi að það var leikmaður að fara í burtu þannig ég hugsaði að það yrðu fleiri tækifæri. Mér fannst ég meira tilbúin. Eins leiðinlegt og það var að kveðja Aftureldingu þá var ég mjög spennt að koma aftur í Val."

Þá vill maður ennþá meira vinna
Valur stóð uppi sem tvöfaldur meistari í haust, liðið landaði bæði Íslands- og bikarmeistaratitli. Ída Marín Hermannsdóttir fór til Bandaríkjanna í háskóla og Sólveig kom inn í liðið og náði að festa sig í byrjunarliðinu. Hún spilaði m.a. bikarúrslitaleik gegn uppeldisfélagi sínu.

„Mér gekk vel seinni helminginn á tímabilinu. Mér fannst sjálfstraustið þá vera komið, fannst það vera það helsta sem varð til þess að mér gekk betur en vanalega."

„Þetta var ótrúlega gaman, maður man ekkert rosalega mikið úr svona leikjum. Þegar maður er í 'zone-inu' eru það góðir leikir. Þetta var á móti gamla liðinu og þá vill maður ennþá meira vinna."


Hvort er stærra, að spila bikarúrslitaleik eða í forkeppni Meistaradeildarinnar?

„Ég myndi segja að leikurinn á móti Slavia Prag í Meistaradeildinni hafi verið stærri. Eins svekkjandi að það var að komast ekki áfram þá er ég mjög glöð að hafa komist þetta langt," sagði Sólveig sem dreymir um að spila fleiri leiki í Meistaradeildinni í framtíðinni.

Mjög ánægð með árin í Val
Hvernig metur Sólveig tímann hjá Val?

„Ég er mjög ánægð. Mér finnst ég búin að þroskast heilmikið andlega, finnst það skipta miklu máli. Mér finnst ég hafa bætt mig í leikskilningi, samvinnu inn á vellinum og í því að flækja hlutina ekki of mikið fyrir mér."

„Eins og Pétur (Pétursson), hann er einfaldur maður, maður flækir stundum hlutina fyrir sér. Hvernig hann talar fyrir leiki, þetta er bara fótbolti, við erum bara að fara spila fótbolta og njóta og það er það eina sem skiptir máli. Það hjálpaði mikið."


Hjá Val lék Sólveig með mörgum reynsluboltum. Hvernig var að spila með þeim?

„Það var mjög þroskandi. Maður finnur að maður er mættur á æfingu til að bæta sig, það er ekki verið að mæta bara til að mæta og ef einhver er ekki alveg 100% þá fær maður alveg að finna fyrir því og maður vill að það sé þannig. Svo fær maður fullt af góðum punktum frá þeim," sagði Sólveig.

Í lok viðtals ræddi hún um U23 landsliðsverkefnið í sumar og A-landsliðið. Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.

Sjá einnig:
Boltinn fór að rúlla eftir að samningnum var rift - „Mjög óraunverulegt að ég sé að fara út"