þri 29.nóv 2022
HM: England og Bandaríkin tryggðu sig í útsláttarkeppnina
Pulisic meiddi sig þegar hann skoraði sigurmark Bandaríkjanna. Honum var skipt af velli í leikhlé.
Mynd: EPA

Wales 0 - 3 England 
0-1 Marcus Rashford ('50)
0-2 Phil Foden ('52)
0-3 Marcus Rashford ('68)

Íran 0 - 1 Bandaríkin
0-1 Christian Pulisic ('38)England og Bandaríkin eru komin í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins eftir flotta sigra gegn Wales og Íran.

Staðan var markalaus í leikhlé hjá Englandi og Wales en lærisveinar Gareth Southgate skiptu um gír í seinni hálfleik og völtuðu yfir talsvert smærri nágrannaþjóð sína.

Marcus Rashford lék á alls oddi þar sem hann skoraði glæsilegt aukaspyrnumark og vann svo boltann skömmu síðar hátt uppi á vellinum þegar Phil Foden tvöfaldaði forystuna eftir glæsilegan undirbúning frá Harry Kane.

Rashford gerði svo út um viðureignina með þriðja markinu á 68. mínútu og ljóst að England mætir Senegal í 16-liða úrslitum.

Christian Pulisic gerði þá eina markið í sigri Bandaríkjanna gegn Írönum. Pulisic skoraði eftir fyrirgjöf frá Sergino Dest og voru Bandaríkjamenn óheppnir að leiða ekki 0-2 í leikhlé.

Íranar mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik en þeim tókst þó ekki að gera jöfnunarmark gegn öflugum Bandaríkjamönnum. Íran fékk fín færi en tókst ekki að setja andstæðinga sína í veruleg vandræði.

Bandaríkin standa því uppi sem sigurvegarar og mæta Hollandi í 16-liða úrslitum.

Lokastaðan í B-riðli:
1. England 7 stig
2. Bandaríkin 5 stig
3. Íran 3 stig
4. Wales 1 stig