mið 30.nóv 2022
„Muni ekki koma nálægt landsliðinu eftir það"
Thibaut Courtois.
Það hefur verið áhugaverð umræða í gangi í kringum belgíska landsliðið undanförnu. Umræðan hefur verið frekar neikvæð undanfarna daga.

Það var fjallað um það í belgískum fjölmiðlum í gær að leikmenn hefðu verið að rífast í búningsklefanum.

Það hafi verið rifrildi í klefanum á milli Jan Vertonghen, Eden Hazard og Kevin De Bruyne. Romelu Lukaku hafi þá stigið inn í og stoppað menn af.

Thibaut Courtois, markvörður Belgíu, er ekki sáttur með það hvað það er mikið að leka úr klefanum.

„Ef við finnum út úr því hver hefur verið að leka þessum upplýsingum þá er alveg ljóst að sá hinn sami mun ekki koma nálægt landsliðinu eftir það," segir Courtois.

Belgía mætir Króatíu í riðlakeppni HM á morgun en liðið þarf líklega sigur til þess að geta komist áfram.