fim 01.des 2022
Keyrði Luke alltaf heim og fékk í staðinn fullt af stoðsendingum
Einu af mörkunum sautján fagnað.
Samvinna Luke og Kjartans var frábær.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Hann nær eiginlega því besta út úr öllum leikmönnunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Það var liðsheildin, við vorum mjög flottur hópur saman. Liðið spilaði mjög vel í sumar og það voru allir sem hjálpuðu mér að ná þessum markakóngstitli. Þetta var liðsheildin, við töpuðum sem lið og unnum sem lið," sagði Kjartan Kári Halldórsson í viðtali við Fótbolta.net á dögunum.

Hann varð markakóngur Lengjudeildarinnar með sautján mörk skoruð í nítján leikjum í sumar. Fyrir frammistöðu sína var hann svo valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar.

Annað úr viðtalinu:
Kjartan Kári: Fékk smá sjokk þegar ég var að skrifa undir úti
Vildi ekki fara frá Gróttu - „Lið sem buðu í mig en ég hlustaði ekki á það"

„Það var nú bara að æfa aukalega, þetta snýst allt um að vera með fókus og fá traustið frá þjálfaranum líka. Maður þarf að æfa aukalega til að ná þessum árangri. Ég og Luke (Rae), við vorum oft tveir saman úti á velli að æfa okkur. Það er kannski ástæðan af hverju við vorum með svona góða tengingu í sumar."

„Það var styrkur, Þór Sigurðsson styrktarþjálfari hjálpaði mér mikið með sprengikraft og líkamlegan styrk. Inn á vellinum var það að vera rólegur fyrir framan markið og að leggja upp mörk líka."


Náðu gríðarlega vel saman
Talandi um Luke Rae, hann lagði upp rúmlega tíu mörk fyrir Kjartan á tímabilinu.

„Hann er flottur leikmaður og hjálpaði mér mjög mikið í sumar að skora svona mörg mörk. Hann kom fyrir tímabilið, við vorum oft saman og oft saman í liði líka á æfingum. Við erum góðir félagar og ég skutlaði honum alltaf heim af æfingum og svona. Við náum gríðarlega vel saman."

Er eitthvað í leik Kjartans sem hann vill gera ennþá betur?

„Varnarleikurinn. Chris (Brazell) hefur komið inn á það að ég skilaði þó mjög mikilli varnarvinnu í sumar. Maður getur líka alltaf bætt sig í að klára færi, leggja upp og sendingarnar."

Nær því besta út úr öllum
Chris er þjálfari Gróttu, tók við eftir tímabilið 2021 eftir að hafa verið aðstoðarmaður Ágústs Gylfasonar þar á undan. Hvernig hefur Chris hjálpað Kjartani að verða ennþá betri?

„Hann nær eiginlega því besta út úr öllum leikmönnunum, ekki bara mér. Hann er geggjaður þjálfari, metnaðarfullur og gríðarlegur heiður að fá að spila undir hans stjórn. Hann vill spila boltanum, vill pressa og spila skemmtilegan fótbolta. Það er leikstíllinn sem hentar mér vel."

Stefnir á að vera hluti af U21 landsliðinu
Kjartan Kári er nítján ára og var í æfingahóp U21 landsliðsins fyrr í þessum mánuði.

„Það var bara fínt en erfitt. Ég var ekki búinn að spila fótbolta í um mánuð. Þetta eru mjög flottir gaurar og mjög erfitt að komast í þennan hóp því það eru mjög sterkir og efnilegir gaurar þarna. Maður reynir sitt allra besta að komast í næsta hóp."

„Já, það er markmiðið (að vera hluti af hópnum í næstu undankeppni). Það er alltaf markmiðið að spila fyrir landsliðið, það er alltaf heiður,"
sagði Kjartan sem á að baki þrettán leiki fyrir unglingalandsliðin. Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.