fim 01.des 2022
Roberto Martínez hættur með belgíska liðið (Staðfest)
Robert Martínez er hættur þjálfun belgíska landsliðsins. Frá þessu greindi hann eftir að ljóst varð að Belgía færi ekki upp úr F-riðli á HM í Katar. Hann var búinn að taka ákvörðun fyrir mótið að það yrði hans síðasta með liðið.

Belgía sat eftir með fjögur stig á meðan Marokkó og Króatía halda í sextán liða úrslitin. Niðurstaðan er mikil vonbrigði, Belgía er í 2. sæti heimslista FIFA og var leiðin í útsláttarkeppnina fyrirfram talin frekar greiðfær.

Belgía skoraði einungis eitt mark í riðlinum og vann með því marki frekar ósanngjarnan sigur á Kanada í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Í kjölfarið tapaði liðið 0-2 gegn Marokkó og í dag gerði liði markalaust jafntefli gegn Króatíu.

Martínez segist hafa ákveðið það fyrir mótið að hætta með liðið, sama hver niðurstaðan yrði.

Martínez er 49 ára gamall og tók við starfinu hjá Belgíu árið 2016. Hann stýrði liðinu í 80 leikjum, 56 þeirra unnust, jafnteflin voru þrettán og töpin ellefu. Alls 70% vinningshlutfall. Á HM 2018 endaði Belgía í 3. sæti sem er besti árangur í sögu þjóðarinnar.

Spánverjinn stýrði áður Swansea, Wigan og Everton á Englandi.