fim 01.des 2022
[email protected]
Töpuðu Spánverjar viljandi? - „Við gætum auðvitað tekið árabátinn"
Japan vann E-riðil með mögnuðum sigri á Spáni. Spánn var marki yfir í hálfleik en missti forystuna á þriggja mínútna kafla í upphafi síðari hálfleik.
Spánn endar í öðru sæti og mætir Marokkó í 16 liða úrslitum á meðan Japan fær Króatíu. Einhverjir eru með samsæriskenningar um það að Spánn hafi kosið að tapa leiknum í dag til að mæta lakari andstæðingum á leið sinni í úrslitaleikinn. Spánverjar spiluðu boltanum mikið sín á milli en ekki var mikið bit í sóknaraðgerðunum. Helga Margrét Höskuldsdóttir var með Arnar Gunnlaugsson, Heimi Hallgrímsson og Gunnar Birgison í settinu í HM stofunni á Rúv eftir leikinn. Gunnar fór yfir skemmtilega myndlíkingu á mögulegum hugsunarhætti Spánverja. „Segjum að við fjögur værum að fara á Þjóðhátíð, við gætum auðvitað tekið árabátinn og kæmumst yfir á endanum myndi ég halda. Við gætum líka bara tekið Herjólf. Þetta er bara nákvæmlega það; Þú hlítur að vilja fá Marokkó og Portúgal frekar en Króatíu og Brasilíu," sagði Gunnar.
|