fös 02.des 2022
Þjálfari Japan fær verðskuldaða athygli
Hajime Moriyasu.
Japan kom öllum á óvart með því að vinnna sinn riðil á HM í Katar. Riðillinn innihélt lið á borð við Þýskaland og Spánverja.

Japanir töpuðu gegn Kosta Ríka í riðlinum en þeim tókst að knýja fram sigur gegn bæði Spáni og Þýskalandi.

Japanir munu mæta Króatíu í 16-liða úrslitunum en það verður fróðlegt að sjá hvernig það mun fara.

Hajime Moriyasu, þjálfari Japan, hefur verið að fá mikið hrós frá því eftir leikinn í gærkvöldi þar sem lagði Spánverja að velli. Þær breytingar sem hann gerði í leiknum höfðu mikil áhrif, líkt og gerðist einnig gegn Þýskalandi þar sem varamennirnir breyttu leiknum.

Moriyasu var varnarsinnaður miðjumaður í landsliði Japan á sínum tíma. Hann tók við sínu gamla félagi, Sanfrecce Hiroshima, átta árum eftir að skórnir fóru upp á hillu. Hann vann deildina þrisvar og tók svo við landsliðinu. Hann hefur sýnt það á þessu móti að hann er mjög öflugur þjálfari.

Það má með sanni segja að hann sé að fá verðskuldaða athygli fyrir sína vinnu eins og sjá má hér að neðan.