fös 02.des 2022
Hinn fjallmyndarlegi Cho Gue-sung hrannar inn fylgjendum
Cho Gue-sung.
Vinsældir Cho Gue-sung, sóknarmanns Suður-Kóreu, aukast á ógnarhraða en hann er kominn með 1,6 milljón fylgjendur á Instagram. Hann hefur aðeins sett inn fimm myndir á Instagrammið sitt og fyrir HM var hann með 20 þúsund fylgjendur.

Vinsældir hans eru af svipuðum toga og þegar Rúrik Gíslason fór yfir milljón fylgjendur á HM 2018.

Cho Gue-sung skoraði bæði mörk Kóreu í 2-3 tapi gegn Gana en aðalástæðan fyrir vinsældum hans er hversu gríðarlega kynþokkafullur hann þykir vera.

Hann er núna orðinn sá kóreski fótboltamaður sem er með næst flesta fylgjendur á samfélagsmiðlum, á eftir stórstjörnunni Son Heung-min sem spilar fyrir Tottenham og er með 9 milljón fylgjendur.

„Ég vil ekki verða frægur. Ég verð sama persónan áfram. Ég hefði frekar viljað sigur frekar en þessi tvö mörk. Það er synd að við unnum ekki," sagði Cho Gue-sung eftir leikinn gegn Gana.

Þessar vinsældir Cho Gue-sung hafa orðið mikið áreiti fyrir hann og segir í umfjöllun The Athletic að hann hafi þurft að slökkva á símanum vegna flóða skilaboða. Þar á meðal hefur hann fengið bónorð úr öllum áttum frá ókunnugu fólki.

Cho Gue-sung, sem er 24 ára, hefur skorað sex mörk í átján landsleikjum fyrir Suður-Kóreu og er helsti markaskorari Jeonbuk Hyundai Motors í kóresku deildinni.