fös 02.des 2022
Hinn þýski Harry Maguire
Niklas Sule.
Rafael van der Vaart, fyrrum landsliðsmaður Hollands, sló tvær flugur í einu höggi í hollensku sjónvarpi í gær.

Hann fór þar yfir leik Þýskalands og Kosta Ríka, en Þjóðverjar eru á heimleið þrátt fyrir sigur í leiknum. Annað mótið í röð falla þeir úr leik í riðlakeppninni.

Van der Vaart skaut á Niklas Sule, miðvörð Þýskalands, eftir leikinn í gær. Hann var ekki hrifinn af hans frammistöðu.

„Þýskaland er með vandamál í vörninni. Sule er ekki í heimsklassa. Hann er hinn þýski Harry Maguire."

Sá hollenski er ekki mikill aðdáandi Maguire og hefur látið það í ljós. Árið 2019 sagðist hann geta fundið áhugamenn sem eru betri í fótbolta en Maguire.

Það skal þó tekið fram að Maguire er búinn að vera virkilega flottur í vörn Englands á þessu heimsmeistaramóti þó hann hafi ekki riðið feitum hesti með Manchester United undanfarna mánuði.