fös 02.des 2022
Heimir um þjálfara Úrúgvæ: Af hverju gerirðu þetta?
Darwin Nunez.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Jamaíku, og Ólafur Kristjánsson, yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki, skildu lítið í ákvörðunum Diego Alonso, þjálfara Úrúgvæ, í seinni hálfleiknum gegn Gana í dag.

Alonso tók bæði Luis Suarez og Darwin Nunez út af í seinni hálfleik í stöðunni 2-0 fyrir Úrúgvæ. Á þeim tímapunkti var Úrúgvæ á leiðinni áfram en svo skoraði Suður-Kórea gegn Portúgal og við það þurfi Úrúgvæ eitt mark til viðbótar. Það kom ekki.

„Okkur finnst það eðlilega skrítið þegar vendingarnar í hinum leiknum verða þannig að allt í einu þarf Úrúgvæ mark," sagði Ólafur á RÚV.

Það sem varð Úrúgvæ að falli á þessu móti er að þeir skora ekki nægilega mikið af mörkum. Suður-Kórea fer áfram með því að skora fleiri mörk.

„Maðurinn sem byrjar alla þrjá leikina og er markaskorari númer eitt (Nunez), þú tekur hann út af þegar þú veist að það getur komið upp sú staða að þú þarft mark. Af hverju gerirðu þetta?" spurði Heimir.

„Þessir þjálfarar eru stundum skrítnir... við sem erum góðir í eftir á skýringum spyrjum af hverju að taka ungan Darwin Nunez út af? Þetta var ekkert búið," sagði Ólafur en Suður-Kórea fer áfram á meðan Úrúgvæ fer heim.