fös 02.des 2022
Son spáði því að Hwang myndi gera eitthvað stórt
Hwang og Son fagna markinu

Hwang Hee-Chan leikmaður Wolves var hetja Suður Kóreu þegar hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma gegn Portúgal í dag og tryggði liðinu þar með farseðilinn í 16-liða úrslit.Hwang sagði frá því eftir leik að Son Heung-Min hafi spáð því fyrir leikinn að Hwang myndi gera eitthvað stórt í dag.

„Fyrir leikinn sagði Son; Þú munt búa eitthvað til í dag, við treystum þér. Þegar Son fékk boltann var ég viss um að hann myndi senda á mig. Þetta var frábær sending og gerði mína vinnu mun auðveldari," sagði Hwang.

Það var mikil spenna eftir leikinn að bíða eftir úrslitum úr leik Úrúgvæ og Gana.

„Það var erfitt að bíða eftir úrslitunum, við sönnuðum það enn einu sinni að við getum farið í útsláttakeppnina. Ég er stoltur Kóreumaður og ég vil þakka öllum kóresku stuðningsfólki. Ég er ánægður að geta gefið þeim þessa gjöf," sagði Hwang.