sun 04.des 2022
Sterling farinn aftur til Englands - Óvíst með framhaldið
Raheem Sterling
Enski landsliðsmaðurinn Raheem Sterling var ekki í leikmannahópi Englands fyrir leikinn gegn Senegölum í 16-liða úrslitum HM í Katar í kvöld en hann var ekki með útaf fjölskylduástæðum.

Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér tilkynningu tæpum tveimur tímum fyrir landsleikinn að Sterling yrði ekki í leikmannahópnum.

Hann var í byrjunarliði Englands í fyrstu tveimur leikjunum í riðlakeppninni en var hvíldur á bekknum gegn Wales í lokaleik riðilsins.

Sterling var svo ekki í hópnum í kvöld en Gareth Southgate, þjálfari liðsins, staðfesti eftir 3-0 sigurinn á Senegölum að Sterling væri á leið aftur til Englands vegna fjölskylduástæðna.

Þegar hann var spurður hvort Sterling myndi snúa aftur til Katar þá gat Southgate ekki svarað þeirri spurningu og því mikil óvissa hvort hann komi aftur fyrir leik Englands gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum mótsins.

Blaðamaðurinn Matt Law segir að innbrotsþjófar hafi ráðist inn á heimili Sterling meðan hann var í Katar og ákvað hann að halda heim til Englands til að athuga stöðuna á fjölskyldunni, en mun ekki taka ákvörðun um framhaldið strax.

„Sterling er á leið í flugi til Englands. Hann þarf tíma með fjölskyldu sinni til að takast á við það vandamál og ég vil ekki setja einhverja pressu á hann með það. Mun hann snúa aftur? Ég veit það ekki. Aðalmálið er að hann sé með fjölskyldu sinni á þessum tímapunkti,“ sagði Southgate.

England mætir Frakklandi á laugardag klukkan 19:00.