mán 05.des 2022
Pele segist ætla að horfa á leikinn á spítalanum
Brasilíska fótboltagoðsögnin Pele ætlar að horfa á leik Brasilíu gegn Suður-Kóreu á heimsmeistaramótinu í kvöld.

Leikurinn í kvöld er í 16-liða úrslitum mótsins en Brasilía stefnir á að fara alla leið - eins og alltaf.

Pele, sem er af mörgum talinn besti fótboltamaður allra tíma, hefur verið í erfiðri baráttu við ristilkrabbamein og bárust á dögunum fréttir frá Brasilíu að nú væri hann kominn í líknarmeðferð.

Hann fékk verk fyrir hjartað á dögunum og var fluttur með hraði á spítala og hafa þekktustu nöfnin í fótboltaheiminum sent honum hlýjar kveðjur í gegnum samfélagsmiðla.

Hann segist vera fullur af orku en hann ætlar sér að horfa á leikinn í kvöld. Hann notaði samfélagsmiðla til að greina frá þessu.

Hann vann HM þrisvar sem leikmaður og vonast hann til að sjá brasilíska liðið lyfta bikarnum þann 18. desember næstkomandi.