mið 07.des 2022
Dagur Austmann verður ekki áfram í Leikni
Varnarmaðurinn Dagur Austmann Hilmarsson verður ekki áfram í Breiðholtinu hjá Leikni Reykjavík en hann rann út af samning eftir að Leiknismenn féllu úr deild þeirra bestu fyrr á þessu ári.

Dagur sem er uppalinn í Stjörnunni en hann fór ungur að aldri til FC Kaupmannahafnar, frá árinu 2017 hefur hann leikið með Aftureldingu, ÍBV, Þrótti og auðvitað Leikni R.

„Ég hef legið undir feld frá því að Besta deildin kláraðist og hef komist að þeirri niðurstöðu að mig langar í nýjar áskoranir. Ég hef átt frábæran tíma hjá Leikni, hef þroskast mikið sem leikmaður og ekki síður sem einstaklingur. Sumarið í sumar var erfitt og að hafa ekki náð að halda okkur í deildinni voru mikil vonbrigði en lærdómurinn sem maður dregur eftir sumarið er dýrmætur og þann lærdóm á ég eftir að nýta til að bæta mig. Að hætta í Leikni er erfið ákvörðun því þar hefur verið mjög skemmtilegt að vera, efnilegir strákar að koma upp og framtíðin er björt," sagði Dagur í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Hvað sjálfan mig varðar þá finnst mér að nú sé rétti tíminn að skoða vel í kringum mig og velja vel hvað ég geri næst en mér fannst heiðarlegast að láta Leikni vita hvar hugur minn lægi frekar en að vera draga þá á svörum, það skiptir mig máli að koma heiðarlega fram."

Dagur sem er 24 ára gamall lék 22 leiki með Leikni í sumar en hann á í heildina á sínum unga ferli 124 leiki og skorað eitt mark í þeim leikjum.