mið 07.des 2022
Hazard hættur með landsliðinu (Staðfest)
Eden Hazard, leikmaður Belgíu, hefur lagt landsliðsskóna á hilluna 31 árs gamall.

Hazard spilar sem sóknarmiðjumaður eða á vængnum og lék sinn fyrsta landsleik fyrir Belgíu 2008, 17 ára gamall. Hann lék 126 landsleiki, skoraði 33 mörk.

„Nú tekur við nýr kafli. Takk fyrir ástina og stuðninginn," segir Hazard sem spilar fyrir Real Madrid.

Þessi ákvörðun hans kemur í kjölfar þess að Belgía komst ekki upp úr riðlinum sínum á HM, liðinu tókst bara að vinna Kanada. Hazard náði sér engan veginn á strik á mótinu, líkt og flestir liðsfélagar hans.

Margir lykilmenn Belgíu eru að nálgast síðasta söludag og kynslóðaskipti framundan sem nýr þjálfari liðsins þarf að stýra, hver sem það verður. Roberto Martínez tilkynnti eftir að Belgía féll úr leik að hann væri hættur sem þjálfari liðsins.