mið 07.des 2022
Með treyju merkta 'Nouri' í fagnaðarlátunum í gær
Marokkó mætir til leiks í átta-liða úrslitunum.
Marokkó vann stórkostlegan sigur gegn Spáni í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í gær.

Spánverjar fundu engar lausnir á varnarleik Marokkó og endaði leikurinn markalaus. Því var gripið til vítaspyrnukeppni og þar voru Marokkóar mun sterkari.

Vítaspyrnur Spánverja voru skelfilega slakar og þeir klúðruðu öllum þremur spyrnum sínum. Bono í marki Marokkó varði tvær vítaspyrnur en ein spyrnan fór í stöngina.

Eftir leik sýndu leikmennn Marokkó fyrrum fótboltamanninum Abdelhak Nouri mikla virðingu.

Nouri fékk hjartaáfall í leik með Ajax árið 2017. Í framhaldinu hlaut hann heilaskaða. Nouri á ættir að rekja til Marokkó en leikmenn liðsins héldu á treyju merktri honum er þeir fögnuðu sigrinum í gær. Hann hefði mögulega verið með þeim á þessu móti ef ekkert hefði komið fyrir hann.