mið 07.des 2022
Skutu á Svövu fyrir fagnið - „Viltu ekki fagna næst með þeim?"
Í Bergen lifa allir fyrir Brann og það vita mjög margir hver þú ert þarna
Ég bætti þetta upp og reyndi eins vel og ég gat í næsta fagni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Svava Rós Guðmundsdóttir leikmaður Brann og kvennalandsliðsins var til viðtals hér á Fótbolti.net í síðustu viku.

Svava, sem gekk í raðir Brann í upphafi árs, sagði frá eftirminnilegu atviki í leik með Brann þegar hún fagnaði marki sem hún skoraði með því að hlaupa í burtu frá stuðningsmönnum félagsins. Það fór misvel í mannskapinn en allt fór vel á endanum.

„Í Bergen lifa allir fyrir Brann og það vita mjög margir hver þú ert þarna. Þetta var fyrsta árið undir nafninu Brann," sagði Svava en félagið hét áður Sandviken.

„Það er allt að verða stærra og stærra. Móttökurnar frá stuðningsmönnum hafa verið geggjaðar, þeir eru búnir að mæta á ótrúlega marga leiki, útileiki. Þetta er mjög stór klúbbur."

Hversu mikið gefur það manni sem leikmanni að vera með stóran stuðningsmannakjarna?

„Svakalega mikið, maður er með annan mann á bakinu sem er alltaf að peppa mann, sem er bara frábært." Svava segir að það sé ekki mikið um óraunhæfar kröfur frá þeim en þeir vilji þó alltaf fá sigur.

„Það var eitt atvik, við vorum að spila heimaleikinn við Rosengård í Meistaradeildinni. Þá skoraði ég, fagnaði og hljóp í burtu frá stuðningsmönnunum. Þeir voru ekkert mjög sáttir með það. Það var alveg óvart, ég missti mig, var svo glöð og hélt áfram að hlaupa. Ég áttaði mig svo á því eftir leikinn að ég hljóp í burtu frá þeim."

„Það voru aðallega fréttamenn sem bentu mér á þetta: „viltu ekki fagna næst með þeim?" Ég svaraði því játandi. Þetta var ekki planið. Ég bætti þetta upp og reyndi eins vel og ég gat í næsta fagni,"
sagði Svava.

Viðtalið við hana má nálgast hér að neðan.